Saga og þróun
Í upphafi áttunda áratugarins samþykktu forráðamenn í Ása-, Djúpár-, Holta-Landmanna- og Rangárvallahreppum að byggja í sameiningu dvalarheimili fyrir aldraða.
Haukur Viktorsson arkitekt hannaði húsið og hófust byggingaframkvæmdir við fyrsta áfangann í ágúst 1974.
Í húsinu voru fjórar tveggja herbergja íbúðir og átta einstaklingsherbergi.
Fyrsti íbúinn flutti á Dvalarheimilið Lund í nóvember 1977.
Strax árið 1978 var fyrirséð að þörf væri fyrir fleiri dvalarrými á Lundi. Var þá þegar stefnt að því að halda áfram með byggingaframkvæmdirnar.
Vegna langs biðlista var ákveðið að kaupa smáhýsi og bæta þeim við dvalarheimilið sem bráðabirgðalausn á húsnæðisvanda heimilisins.
Fyrstu húsin voru keypt í febrúar 1982.
Árið 1982 lá jafnframt fyrir teikning Hauks Viktorssonar að hjúkrunardeildinni sem stjórnarmenn töldu þá þegar mjög brýnt verkefni.
Árið 1987 var samið við Rangá hf. um byggingu á hjúkrunardeild við Dvalarheimilið Lund.
Árið 1993 fékkst formlegt leyfi frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu fyrir rekstri á 12 rúmum á hjúkrunardeild og 18 á þjónustudeild.
Árið 1994 var opnuð með viðhöfn nýbygging við Lund. Var þar komin fullbúin hjúkrunardeild ásamt eldhúsi og matsal sem brýn þörf var fyrir.
Árið 1997 var opnuð aðstaða fyrir sjúkraþjálfun.
Árið 1998 var hjúkrunarrýmum fjölgað í 22 en þjónusturýmum fækkað niður í 8. Um leið fékkst leyfi fyrir tveimur dagvistarrýmum og sama ár var opnuð aðstaða fyrir iðjuþjálfun.
Árið 2001 var bætt við einu hjúkrunarrými og tveimur hvíldarrýmum.
Árið 2003 fékkst leyfi fyrir einu hvíldarrými í viðbót, þau eru því samtals 3.
Árið 2007 fékkst í gegn breyting á tveimur þjónusturýmum yfir í hjúkrunarrými og eru því samtals 25 hjúkrunarrými og 6 þjónusturými (einungis 3 nýtt).
Í janúar 2011 var ákveðið af Velferðaráðuneyti að taka eitt hvíldarrými af þremur af Lundi. Eftir að sú breyting gekk í garð, hefur Lundur 25 hjúkrunarrými, 2 þjónusturými og 2 hvíldarrými.
Í lok árs 2014 fengust tvö hjúkrunarrými til viðbótar til að mæta þörfinni á Suðurlandi.
Í febrúar 2016 bættist við eitt hjúkrunarrými til að mæta flæðisvanda Landspítala. Lundur er því í dag með 28 hjúkrunarrými 2 hvíldartími og 2 þjónusturými
Í febrúar 2017 var tekin í notkun ný hjúkrunardeild með 8 rúmgóðum herbergjum og stoðrými.
Í dag eru því samtals 32 íbúar á Lundi sem öllum gefst kostur á að vera í einbýli.